23.1.2013 | 07:56
Sönn saga.
Jæja, hér kemur saga mánaðarins!
Á ákveðnum tímapunkti í lífinu breytast hlutirnir og allt í einu fer eitt og annað að skipta mann máli eins og gildi, virði og hver maður sé, hverra manna og þar eftir götunum. Og já, eftir því sem ég eldist langar mig meira að vita hver föðurafi minn var/er, þarna er heill ættliður sem er týndur.
En ég get ímyndað mér að það langar engan eins mikið og pabba minn að vita hver pabbi hans var/er.
Pabbi minn var um tveggja ára þegar móðir hans lést. Og þegar hann komst til vits og ára, vissi enginn nafnið á föður hans, né hverrar þjóðar hann var.
En hann heyrði því fleykt að faðir hans hafi verið Kani, Breti, Frakki og Indjáni frá Flórída, hafi verið í Nauthólsvíkinni og farist. Og síðast en ekki allra síst og það allra merkilegasta að foreldrar hans höfðu trúlofast og það hafi komið í blöðunum.
Pabbi bað mig að leita í blöðunum, sem ég gerði, eyddi dágóðum tíma í Þjóðarbókhlöðunni fyrir mörgum árum síðar, fletti hverju blaðinu á eftir öðru. Og gafst upp að lokum.
Ég var ekki sú eina sem leitaði, það var ekkert um trúlofun ömmu minnar og afa í þessum blöðum en það vantaði líka eitthvað í þessi blöð. Og ef þessi tilkynning var til þá hlaut hún að hafa verið á þessum týndu blöðum.
Kannski átti þetta bara að vera svona.
Eitt kvöldið fyrr í þessum mánuði var ég að vinna í sögu og var að leita mér að upplýsingum á netinu og fletti þessu magnaða vefforiti timarit.is En fyrir einhverja rælni, án umhugsunar, sló ég inn nafninu á ömmu minni, ártalinu og trúlofun. Síðan skrollaði ég niður skjáinn í smá stund og var á leiðinni í bælið þegar ég rak augun í hana. Trúlofunina, hún var þarna, svart á hvítu. Auðvitað fór ég ekki í rúmið.
Ég sendi póst til pabba og hélt áfram að leita eftir E. Bray en hef ekkert fundið ennþá.
Eiginlega veit ég ekki hver næstu skref verða en núna fyrst höfum við eitthvað sem við getum leitað eftir.
Skrítið hvernig hlutirnir æxlast. Er þetta tilviljun eða örlög. En ég spyr líka, hvers vegna núna?
Þessi saga er sönn, henni er ekki lokið og endirinn er ekki fyrirsjáanlegur.
Es.
Auðvitað þiggjum við allar upplýsingar, sem gætu komið að notum.
Tenglar
Mínir tenglar
- Sirrý Sig rithöfundur Rithöfunda-fésið mitt
- Nostri publication útgáfu síðan okkar á ensku
- Samskrif Hildar Enólu og Sirrýjar Sig. Um okkur og ritferlið
- Lina Descret Íslenskur fantasíuflokkur
- Book trailer Stutt myndband
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.